Center Parcs, ­Kempervennen, ­Holland

 

Umfram allt vil ég byrja á að hrósa öllum sem koma að þessu stórkostlega framtaki sem „Vildarbörn“ er. Að gefa fjölskyldum fatlaðra og langveikra barna möguleika á að fara í Draumaferðalag er svo ótrúlega magnað framtak.

Fjölskyldan hlakkaði mjög mikið til að fara til útlanda í sumarfrí og þegar klukkan hringdi klukkan 03:00 voru allir mjög snöggir fram úr, mamma, pabbi, Sverrir Týr stóri bróðir minn (17 ára) og Rebecca Ann litla systir mín (4 ára). Amma og afi sem ákváðu að skella sér með okkur í ferðina til aðstoðar komu eldsnemma til að ferja farangurinn útí bílana. Stórfjölskyldan var mætt snemma á flugvöllinn, fékk sér morgunmat og mætti í Eyjafjallajökul, flugvélina okkar. Flugið var stutt, frábært og þjónustan um borð meiriháttar, Hildur Elísabet vinkona hennar mömmu var flugfreyja í vélinni og hugsaði vel um okkur. Þegar við lentum í Amsterdam Hollandi vorum við svolítinn tíma að finna útúr hvernig við ættum að nálgast bílaleigubílinn okkar (eða hreinlega hvert við ættum að fara).

Schiphol flugvöllur er vægast sagt mjög stór og auðvelt að villast, á endanum fundum við þó bílaleiguna og fengum bílana. Mamma og afi keyrðu sitthvorn bílinn, og með aðstoð frá GPS græjum komumst við (eftir þó nokkrar lykkjur og U­beygjur) uppá hraðbrautina sem lá til Kempervennen. Ökuleiðin var hér um bil þráðbein leið, rétt um klukkutíma og 45 mínútur í glampasólskyni.

Þegar við komum til Kempervennen tók það mjög stuttan tíma að fá öll gögnin afhent, finna rétta staðinn og leggja bílnum á bílastæðið. Húsið var staðsett frábærlega, þar var allt til alls, 4 svefniherbergi, baðherbergi, sturtuherbergi og annað sér klósett, ásamt miðjurými með stofu og eldhúsi. Stór opnanleg hurð var útúr stofunni þar sem var hellulögð aðstaða með sólhúsgögnum sem horfðu útá tjörn með fuglum á sundi.

Það var mjög skemmtilegt að sjá hvað dýrin á svæðinu voru vön gestunum. Til dæmis mættu alltaf sömmu fuglarnir á stéttina hjá okkur til að fá brauð, jafnvel úr hendinni beint. Við komum okkur svo fyrir og aðlöguðum eitt svefniherbergið sérstaklega fyrir mig. Foreldrar mínir hafa fundið út að auðveldast sé fyrir mig að sofa í tjaldi á gólfinu, í svokallaðri inni ­ útileigu þegar við erum á einhversskonar ferðalagi og ég ekki með aðgang að sérsmíðuðu rúmi sem hentar mér. Dýnan úr einu rúminu smellpassaði í tjaldið mitt og ég var alsæll með fyrirkomulagið sérstaklega því ég gat látið skrjáfa í tjaldinu og fengið einveru þegar ég þurfti. Eftir að búið var að koma sér fyrir var ákveðið að skoða aðeins umhverfið og reyna að staðsetja alla afþreyingu ásamt því að fara í matvörubúðina.

Búðin er staðsett ásamt hinum ýmsu veitingastöðum, gjafavöruverslun, upplýsinga aðstoð, leiktækjum, , keilusal, kaffihúsi og fullt af dýrum, trjám og innitjörn í yfirbyggðu glerhúsi samtengdu við sundlaugina. Þetta svæði er kallað „Marketdome“ og var stanslaus dagskrá alla vikuna, allt frá söngatriðum, tónleikum, brúðuleiksýningum, barnadiskói og látbragðsleik.

Á þeirru viku sem við vorum í Kempervennen brölluðum við margt skemmtilegt. Við fórum meðal annars í göngutúra og skoðuðum „petting zoo“ þar sem við sáum geitur, bamba, hænur, kalkúna, asna og kindur. Ásamt því að hægt var að mjólka spena á trébelju í fötu, það fannst systir minni mjög skemmtilegt. Við notuðum útileiktækin mikið, sérstaklega trampólínin sem mér finnst æðisleg og hoppukastalann, við fórum í mínigolf, prufuðum bátana ásamt því að mamma, pabbbi og Sverrir Týr fóru í Paintball á meðan ég, amma og afi sóluðum okkur. Rebecca systir mín fór í Prinsessuklúbb eitt eftirmiðdegi og fékk að fara með öðrum stelpum í prinsessukjól og búa til kórónu og Sverrir Týr fór í háloftaklifur í sigbelti.

Ekki má gleyma að minnast á sundlaugina sem var æðisleg, aðgengi var mjög gott og var innisvæðið upphitað og vel hlýtt sem hentaði okkur frábærlega. Þar prufðum við rennibrautir, inni og útilaugina og loftbólusvæðið sem mér fannnst alveg stórkostlegt. Í sundlaugunni fékk ég lánað

Ákvörðunin um að fara til Kempervennen hitti í mark hjá fjölskyldunni, á þeirri viku sem við dvöldum þar komust við ekki einu sinni yfir að prufa allt saman því það var svo mikið sem hægt var að velja.

Á svæðinu er eitthvað fyrir alla fjölskylduna; dýralíf, útileiktæki, innileiktæki, hoppukastalar, míni golf, Keila, Tennis, borðtennis, billjard, píla, fótbolti, paintball, lasertag, bátar, klifur, sjóskíði, hjól, sundlaugar með allskyns rennibrautum, veitingastaðir, barnadiskó, klúbbar, inni skíðahöll og margt margt fleira.

Einnig má nefna að garðurinn er staðsettur í um það bil 20 mínútna akstursfjarlægð frá Einhoven, þar sem við fórum aðeins í verlsunarleiðangur og pabbi minn og stóri bróðir fóru að skoða Einhoven fótbolta leikvöllinn. Var það í eina skiptið sem við fórum í bílinn að undanskyldum ferðalögunum fram og tilbaka.

Við berum sérstakar þakkir til Icelandair, starfsfólks fyrirtækisins, velunnurum og öllum þeim sem leggja hönd á plóginn við að leggja málefninu lið með því að setja framlag í þar til gerð umslög eða með gjöf á vildarpunktum, þetta var algjörlega einstakt ferðalag.

Takk fyrir mig og mína,
Calvin Kári Ramsay